Samþykkt um hundahald á Suðurnesjum
Samþykkt um hundahald í Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Miðneshreppi, Gerðahreppi, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnahreppi, ásamt síðari breytingum.
1. gr.
Hundahald er bannað innan ofangreindra sveitarfélaga á Suðurnesjum að undanskildum þarfahundum á lögbýlum, leitarhundum og hundum til aðstoðar blindu og fötluðu fólki samkvæmt læknisráði.
2. gr.
Sveitarstjórnum er heimilt að veita undanþágu til hundahalds með eftirtöldum skilyrðum:
- Hundurinn skal skráður hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja ( H.E.S.) og er leyfi bundið við nafn og heimilisfang lögráða einstaklings. Hundurinn skal merktur með INDEXEL örmerki auk merkis í hálsól sem sýni að hann hafi verið hreinsaður af bandormum.
- Árlega skal greiða leyfisgjald fyrir þá hunda sem undanþága er veitt fyrir. H.E.S. sér um að ábyrgðartryggja alla skráða hunda á svæðinu. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja gerir tillögu um upphæð leyfisgjalds til sveitarstjórna á Suðurnesjum sem ákveða gjaldið í sérstakri gjaldskrá sem umhverfisráðherra staðfestir og er gjaldið til að standa straum af kostnaði við umsjón og eftirlit með hundum á svæðinu. Gjaldið greiðist við skráningu fyrir eitt ár í senn og síðan fyrirfram árlega með gjalddaga 1. mars. Af þarfahundum á lögbýlum, leitarhundum og hundum til aðstoðar blindu og fötluðu fólki samkvæmt vottorði læknis, greiðist hálft gjald. Ef fleiri en einn hundur er á sama heimili og í eigu sama einstaklings, greiðist fullt gjald af einum hundi en hálft gjald af öðrum. Dráttarvextir falla á ógreidd gjöld eftir 1. júní. Hafi gjöldin ekki verið greidd 1. september falla hlutaðeigandi leyfi úr gildi. Ef eigandaskipti verða á hundi ber hinum nýja eiganda að sækja þegar um undanþágu til H.E.S.
- Hundur skal aldrei ganga laus á almannafæri heldur vera í taumi í fylgd aðila sem hefur fullt vald yfir honum. Eigi er leyfilegt að fara með hund inn í skóla, íþróttahús, sundstaði, barnaleikvelli, almenningsfarartæki, matvöruverslanir, fiskverkunarhús eða aðra staði þar sem matvæli eru um hönd höfð, ennfremur sjúkrahús, kirkjur, bókasöfn og aðrar opinberar stofnanir. Þarfahundar á lögbýlum ( smalahundar ) mega ekki ganga lausir utan girðingar nema þegar þeir eru notaðir við smölun.
- Hundahald í sambýlishúsum er háð því að eigendur/umráðamenn íbúða eða stjórn húsfélaga samþykki slíkt og ber umsækjanda að leggja fram skriflegt samþykki þeirra með umsókn sinni til hundahalds.
- Hundaeigendum ber að hlýta að öðru leyti lögum og reglum er hundahald varða, þar á meðal reglum um árlega hreinsun (bandormahreinsun) svo og fyrirmælum sem heilbrigðisnefnd kann að setja.
- Hundar mega ekki valda ónæði með spangóli eða gelti.
- Þegar hundur er í festi á húslóð skal lengd festarinnar við það miðuð að óhindrað megi ganga að aðaldyrum hússins.
- Hundaeigendum ber að viðhafa fullkomið hreinlæti í meðferð hunda sinna og m.a. fjærlægja hundaskít.
3. gr.
Ef brotið er gegn skilyrðum fyrir hundahaldi má taka viðkomandi hund úr umferð og skal honum komið fyrir í hundageymslu sé um minni háttar brot að ræða. Skal þá hundaeigandi látinn vita og honum gefinn kostur á að leysa hundinn út gegn greiðslu alls kostnaðar vegna brotsins innan viku. Sé um að ræða ítrekað brot og alvarlegt brot, afturkallast viðkomandi undanþága til hundahalds.
Veitist hundur að fólki með gelti eða urri að tilefnislausu, glefsar eða bítur, telst það alvarlegt brot.
Vanræksla á að færa hund til bandormahreinsunar telst alvarlegt brot. Sé hundur staðinn að því að elta og bíta sauðfé, telst það alvarlegt brot. Heimilt er að aflífa leyfislausa hunda.
4. gr.
Sveitastjórnum er heimilt hvenær sem þörf krefur að afturkalla leyfi fyrir einstökum hundum eða öll veitt leyfi teljist þess þörf. Þegar um afturköllun leyfis er að ræða ber hundaeiganda að færa viðkomandi hund í hundageymslu eða til dýralæknis í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja.
Í þeim tilvikum þar sem rekja má leyfissviptingu til vanrækslu eiganda skal veittur vikufrestur til að ráðstafa hundinum annað. Sé slíkt ekki gert er heimilt að aflífa hundinn.
5. gr.
Brot gegn samþykkt þessari varðar sektum. Með broti gegn samþykkt þessari skal farið að hætti laga um meðferð opinberra mála og að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga nr. 109/1984.
6. gr.
Framangreind samþykkt sveitarstjórna Keflavíkur, Njarðvíkur, Grindavíkur, Miðneshrepps, Gerðahrepps, Vatnsleysustrandarhrepps og Hafnahrepps staðfestist hér með skv. 22. gr. laga nr. 109/1984 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. lög nr. 7/1953, um hundahald og varnir gegn sullaveiki, til þess að öðlast gildi þegar við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi samþykkt með sama heiti frá 29. janúar 1985.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 1. september 1987. F.h.r.
______________________________
Páll Sigurðsson
_______________________________
Ingimar Sigurðsson