Númerslausar bifreiðar og lóðahreinsanir

Um ábyrgð eiganda eða umráðamanns húss eða mannvirkis

Í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti segir í 18. gr, 1. mgr.: ,,Eigandi eða umráðamaður húss eða mannvirkis skal halda eigninni hreinni og snyrtilegri ásamt tilheyrandi lóð og girðingum, þannig að ekki valdi öðrum ónæði“. Í 20. gr. 1. mgr. segir: ,,Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti“ og í 21. gr. segir ,,Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum“. 

Heimild fyrir ákvörðun um lóðahreinsun og/eða að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar eða bílflök

 1. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum:

,,Umráðamönnum lóða er skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum.
Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni.
Nefndin getur krafist lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum, ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðar eða ef ástand þeirra er til lýta fyrir umhverfið.
Nefndinni er heimilt að fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og ef sérstök ástæða er til niðurrif húsa og girðinga í niðurníðslu.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum.
Heilbrigðisnefnd getur látið hreinsa einkalóðir á kostnað eigenda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu“.

Lögveð í fasteign

Bent er á að kostnaður sem til fellur, er tryggður með lögveðsrétti í húsi, lóð eða tæki, sbr. 61. gr. 2. mgr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

Þetta þýðir að við lóðahreinsanir á vegum Heilbrigðiseftirlitsins fær embættið lögveð í lóð og fasteign og getur krafist uppboðs á húsi, lóð eða tæki til greiðslu á vinnu og útlögðum kostnaði.

 

Númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilegir hlutir

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja notar límmiða við álímingar á númerslaus ökutæki, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilega hluti (hér eftir nefndir hlutir). Límmiðarnir eru settir til þess að ná athygli eiganda/umráðamanns hlutarins enda má ætla að hluturinn sé undir eftirliti og í umhirðu hans. Á miðunum koma fram upplýsingar um hvað standi til.

Reynt er að líma miða, einn eða fleiri, á áberandi staði og þannig að þeir séu vel sýnilegir. Um tvenns konar miða er að ræða og er þeim lýst hér að neðan. Einnig er tilkynningarseðill borinn í nærliggjandi hús þegar um hlut á einkalóðum er að ræða og þar sem því er viðkomið og það á við.

Gulur miði – Tilkynning um meðferð máls

Sé gulur miði límdur á hlut hefur Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja tekið til meðferðar að láta fjarlægja hlutinn.

 • Gulur miði er límdur á hluti sem standa á lóðum íbúðarhúsa, sumarhúsa og þ.h. á starfssvæði embættis Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.
 • Gulur miði er límdur á hluti sem standa á lóðum iðnaðarhúsa eða lóðum annarra húsa á iðnaðar- eða athafnasvæðum á starfssvæði embættis Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.
 • Gulur miði er límdur á hluti sem standa á lóðum þar sem vafi liggur á um eignarhald lóða, lendna eða vega.

Auk álímingar gula miðans á hlutinn er tilkynningarseðill borinn í nærliggjandi hús eða afhentur húsráðanda/íbúa þar sem því er viðkomið. Sjá upplýsingar um tilkynningarseðilinn hér að neðan.

Eiganda/umráðamanni er almennt gefinn einnar viku frestur til þess að að gera athugasemdir við tilkynninguna. Fjarlægi eigandi/umráðamaður hlutinn innan gefins frests fellur málið niður. Berist engar athugasemdir og hluturinn hefur ekki verið fjarlægður innan tilskilins frests má búast við að stjórnvaldsákvörðun verði tekin, rauður miði límdur á hlutinn og lokafrestur gefinn. Eftir að lokafrestur er liðinn verður hluturinn fjarlægður við fyrsta hentugleika.

Tilkynningarseðill – Tilkynning um meðferð máls

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur tekið til meðferðar mál um að láta fjarlægja hlut. Gulur límmiði hefur verið límdur á hlutinn.

Tilkynningarseðill um meðferð máls er lagður inn í bréfalúgu, afhentur húsráðanda/íbúa eða settur inn í stigagang eftir því sem við er komið.

Rauður miði – Tilkynning um stjórnvaldsákvörðun

Sé rauður miði límdur á hlut hefur Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja tekið stjórnvaldsákvörðun um að fjarlægja hlutinn innan þess frests sem ákveðinn er.

 • Rauður miði er límdur á hluti sem standa á almenningssvæðum eða lóðum í eigu sveitarfélaganna á starfssvæði embættis Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.
 • Rauður miði er límdur á hluti sem standa á bílastæðum, á og við götur/vegi innan sveitarfélaganna eða götum/vegum í umsjá Vegagerðarinnar á starfssvæði embættis Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.
 • Rauður miði getur einnig verið límdur á hluti sem áður hafa verið teknir til meðferðar og eigandi/umráðamaður ekki brugðist við eftir tilkynningu.

Eiganda eða umráðamanni er gefinn að lágmarki einnar viku frestur til að fjarlægja hlutinn. Fresturinn getur verið styttri sé talið að hluturinn geti valdið skaða, mengun eða lýti á umhverfinu eða hamlar framkvæmdum eða umferð að mati bæjar- eða lögregluyfirvalda. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.

Sérstaklega um númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilega hluti

Bent er á eftirfarandi meginreglur um númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilega hluti:

 • Rauður miði: Númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilegir hlutir sem eru á almannafæri, þ.e. ekki á einkalóð, geta fengið álímdan aðvörunarmiða. Veittur er einnar viku frestur til að fjarlægja hið álímda tæki.
 • Gulur miði og tilkynningarseðill: Númerslausar bifreiðar, bílflök, kerrur, vinnuvélar og sambærilegir hlutir sem eru inni á einkalóð og eru til lýta og/eða valda mengunarhættu fyrir umhverfið, þrátt fyrir að vera á bílastæði, geta fengið álímdan miða þar sem tilkynnt er að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur tekið til meðferðar að fjarlægja viðkomandi farartæki eða hlut. Embættið getur einnig beitt ákvæðum reglugerðar um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003 er heimilar hreinsun lóða þ.m.t. einkalóða.
 • Gulur miði og tilkynningarseðill: Númerslausar bifreiðar sem ekki eru á skilgreindu bílastæði einkalóðar geta fengið álímdan miða þar sem tilkynnt er að embættið hafi tekið til meðferðar að krefjast þess að viðkomandi bifreið verði fjarlægð.
 • Númerslausar bifreiðar sem eru inni á skilgreindu bílastæði einkalóðar og eru ekki til lýta og valda ekki mengunarhættu fyrir umhverfið, fá ekki álímdan miða frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja.

Skilagjald á ökutæki

Eigandi ökutækis getur fengið skilagjald fyrir ökutæki sitt eftir afhendingu til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar hafi ökutækið verið afskráð og úrvinnslugjald greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki. Endurvinnslu- og dráttarbílaþjónustur eins og t.d. Bílaflutningar Kristjáns, Hringrás hf. og  Vaka hf. eru með móttökustöðvar og taka við bifreiðum og undirbúa hreinsun spilliefna til endurvinnslu.

Frekari upplýsingar um skilagjald má finna á heimasíðu Úrvinnslusjóðs og á heimasíðum endurvinnslufyrirtækjanna.

Kostnaður vegna dráttar á ökutæki

Kostnaður af hendi dráttarbílaþjónustu vegna hreinsunar/dráttar á ökutæki skiptist t.d.  í flutningsgjald, innskriftar- og afgreiðslugjald og að auki daglegt geymslugjald sé ökutækið ekki sótt innan þess frests sem gefinn er í útsendu bréfi frá viðkomandi fyrirtæki. Greiði eigandi ekki reikning vegna vinnu dráttarbílaþjónustunnar greiðir Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja þann reikning og innheimtir síðan útlagðan kostnað, ásamt kostnaði vegna vinnu embættisins, hjá viðkomandi eiganda ökutækisins. Kostnaður sem fellur á eiganda ökutækisins getur því verið umtalsverður sé ekki gengið frá málum fljótt. Meðalkostnaður á hvert ökutæki árið 2019 var rúmlega 50.000 kr.

Málsskot

Um valdsvið og þvingunarúrræði heilbrigðiseftirlits vísast í 60. og 61. gr. í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimilt er að kæra málsmeðferð og aðgerðir Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja til sérstakrar úrskurðarnefndar sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998. Slík kæra eða málsskot frestar þó ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hægt er að hafa samband við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja með því að senda tölvupóst á hes@hes.is.