Starfsleyfisskilyrði fyrir Jarðboranir hf á Reykjanesi neðan „grá lónsins“ RN-39.
28. 11. 2023
Starfsleyfisskilyrði fyrir bifreiðaverkstæði, smurstöð og hjólbarðaþjónustu N1 ehf., Flugvöllum 27, 230 Reykjanesbæ.
19. 12. 2023
Minnislisti fyrir starfsleyfishafa og skráningarskyld fyrirtæki í Grindavík

Minnislisti fyrir starfsleyfishafa og skráningarskyld fyrirtæki í Grindavík.

Jarðskjálftarnir 10. nóvember sl. og rýming Grindavíkurbæjar hefur haft gríðarleg áhrif á alla starfsemi í bæjarfélaginu. Nú þegar atvinnurekendur eru að leita að leiðum til komast aftur af stað er að mörgu að hyggja. Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafa tekið saman nokkra punkta sem gott og jafnvel nauðsynlegt er að hafa í huga. Leitast verður við að uppfæra þessa punkta og bæta eftir því sem fram vindur og eru fyrirtækjaeigendur hvattir til að leita sér ráða hjá heilbrigðiseftirlitinu. Þá er æskilegt að fyrirtæki tilkynni til HES um áform um að hefja aftur starfsemi, leggja starfsemi niður eða flytja starfsemi í annað sveitarfélag.

Flutningur á starfsemi.
Þau fyrirtæki sem hyggjast flytja starfsemi sína frá Grindavík verða að afla sér nýrra leyfa.  Hægt er að skrá skráningarskylda starfsemi á starfsemi.is. (Lista yfir skráningarskyldan rekstur má finna á https://ust.is/atvinnulif/heilbrigdiseftirlit-sveitarfelaga/skraningaskyldur-atvinnurekstur/spurt-og-svarad/ ). Aðrir þurfa að sækja um starfsleyfi hjá viðkomandi heilbrigðisnefnd (https://ust.is/atvinnulif/heilbrigdiseftirlit-sveitarfelaga/heilbrigdiseftirlitssvaedin/). Starfsmenn HES geta veitt ráðgjöf og leiðbeiningar.

Fráveitulagnir fasteigna.
Grindavíkurbær hefur lagt nótt við dag við að mynda og lagfæra fráveitukerfi bæjarins.  Ekki er hægt að útiloka að fráveitulagnir innandyra, í húsgrunnum og innan lóðar hafi laskast.  Rekstraraðilar þurfa að fullvissa sig um að þessi búnaður haldi vatni til að koma í veg fyrir mengun og tjón á fasteignum.

Mengunarvarnabúnaður.
Niðurgrafnir eldsneytistankar, olíuskiljur, fituskiljur, rotþrær og lagnir að þeim búnaði gæti hafa skemmst í jarðhræringum.  Mikilvægt er að yfirfara þennan búnað til að koma í veg fyrir mengunarslys.  Gera þarf þrýstiprófanir og mynda lagnir eftir því sem við á.  Þörf getur verið á að endurtaka þetta reglulega á meðan jörð er enn á hreyfingu.

Kæli- og frystikerfi.
Yfirfara þarf þessi kerfi með veikleika á tengingum eða leka á kælimiðlum í huga í kjölfar jarðhræringanna.

Meindýravarnir.
Skemmd holræsakerfi, fjarvera manna, hunda og katta, sprungur í byggingum og röskun á sorphirðu getur aukið hættu á músa- og jafnvel rottugangi.  Mikilvægt er að sýna fyllstu aðgát vegna þessa með því að aðgæta að þéttleika hurða, glugga o.þ.h., ganga vel frá sorpi og nýta heppilegar meindýravarnir. Athuga þarf hvort gildrur séu fullar eftir að bærinn var nánast mannlaus.  Mælt er með því að nýta þjónustu meindýraeyða.

Annað. 
Mælst er til þess að fyrirtæki sendi til embættisins samantekt um hvaða þættir voru skoðaðir og hverjir framkvæmdu skoðun, þ.e.a.s. hvort um hafi verið að ræða löggilta aðila eður ei. Þurfi fyrirtæki frekari leiðbeiningar eða aðstoð um þá þætti sem þarf að skoða má senda tölvupóst á hes@hes.is og óska eftir frekari leiðbeiningum fyrir sína starfstöð. Einnig getur fyrirtækið óskað eftir að fulltrúi HES komi í eftirlit á starfstöðina sé fyrirtækið ekki með á hreinu hvaða þætti þarf að skoða.