Starfsleyfisauglýsingar
Auglýsing um starfsleyfistillögur sbr. reglugerð nr. 785/1999.
Tillaga að starfsleyfi ásamt starfsleyfisskilyrðum neðangreinds fyrirtækis liggur frammi til kynningar á eftirtöldum stöðum; skrifstofu HES að Skógarbraut 945, 262 Reykjanesbæ auk hes.is og bæjarskrifstofu Grindavíkurbæjar.
Ístak hf, kr. 430214-1520, Stapafellsnáma á Reykjanesi, 240 Grindavík fyrir vinnslu jarðefna, þ.m.t. malar og grjótnám.
Samkvæmt ofangreindri reglugerð hafa eftirtaldir aðilar rétt til athugasemda:
- Sá sem sótt hefur um starfsleyfi svo og forsvarsmenn og starfsmenn tengdrar eða nálægrar starfsemi.
- Íbúar þess svæðis sem ætla má að geti orðið fyrir óþægindum vegna mengunar.
- Opinberir aðilar, félög og aðrir þeir sem málið varðar.
Skriflegar athugasemdir skal senda til heilbrigðisnefndar Suðurnesja, Skógarbraut 945, 262 Reykjanesbæ. Frestur til að gera athugasemdir er fjórar vikur frá birtingu þessarar auglýsingar.
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja
STARFSLEYFISSKILYRÐI
Ístak hf. vegna efnistöku í Stapafelli, Grindavíkurbæ
kt. 430214-1520
DRÖG
Starfsleyfi, ásamt þessum starfsleyfisskilyrðum, er gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 785/1999 um atvinnustarfsemi sem getur haft í för með sér mengun.
Fyrir liggur álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 10. júlí 2017 og framkvæmdaleyfi frá Grindavíkurbæ dags. 29. ágúst 2017.
Starfsleyfishafi, Ístak hf., er með skráð aðsetur að Bugðufljóti 19, 270 Mosfellsbæ. Framsal starfleyfis til annarra en starfsleyfishafa er óheimil.
1. Almenn ákvæði og gildissvið
1.1. Starfsleyfisskilyrðin gilda fyrir efnistöku á 17,4 ha. svæði úr Stapafellsnámu á Reykjanesi og er áætluð efnistaka um 300.000 m3 á ári næstu tvö árin, en eftir það 130.000 m3 á ári þar til 1,7 milljón m3 hefur verið náð. Nánara umfang og skilgreining efnistökusvæðis hefur verið skilgreint í frummatsskýrslu dags. 13. mars 2017.
1.2. Starfsemin skal vera í samræmi við gildandi aðal- og deilskipulag svæðisins.
1.3. Rekstraraðili ber ábyrgð á að framkvæmdin stofni ekki öryggi vatnsverndar í hættu.
1.4. Auk laga og reglna sem um starfsemina gilda skal fyrirtækið fara eftir starfsleyfisskilyrðum þessum ásamt skilmálum er fram koma í framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins, áliti Skipulagsstofnunar og eigin vinnslutilhögun sem tilgreind er í matskýrslu.
1.5. Ef rekstraraðili er með annan starfsleyfisskyldan rekstur samhliða gilda um hann viðeigandi starfsleyfisskilyrði.
1.6. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur eftirlit með starfsemi rekstraraðila samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998, reglugerðar nr. 785/1999, reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit og öðrum reglugerðum sem gilda um starfsemi fyrirtækisins og eftir því sem nánar er fyrir mælt í starfsleyfinu.
1.7. Rekstraraðili skal tilnefna sérstakan ábyrgðarmann fyrir umhverfismálum gagnvart heilbrigðiseftirliti.
1.8. Fyrirtækið skal veita Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á rekstrinum með góðum fyrirvara áður en ráðist er í þær.
1.9. Endurskoða skal starfsleyfið að jafnaði á fjögurra ára fresti. Verði meiriháttar breyting á rekstrinum eða breyting sem gæti leitt til aukinnar mengunar að mati Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja ber að sækja um starfsleyfi að nýju. Heimilt er að endurskoða starfsleyfisskilyrðin ef í ljós koma annmarkar á framkvæmd þeirra, í ljós koma skaðleg áhrif á almenning eða vegna röskunar á lífríki og umhverfi sem ekki voru ljós fyrir. Sama gildir ef fram koma almennar kröfur eða ný tækni er leiða til bættra mengunarvarna.
1.10. Tilkynna skal heilbrigðiseftirliti ef starfsemi fyrirtækisins er lögð niður eða ef eigendaskipti verða.
2. Mengunarvarnir
2.1. Svæðið er á skilgreindu vatnsverndarsvæði, þar sem grunnvatnsstraumur liggur undir efnistökusvæðinu, og því skal ekki geyma olíu eða olíuvörur á svæðinu umfram lágmarksbirgðir til skammtímanotkunar. Geymsluaðstaða á olíu eða olíuvörum skal vera með samþykki Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Olíuflutningabifreið kemur á skilgreint áfyllingarplan þegar þörf er á og fyllir á vélar.
2.2. Olíuáfyllingar og olíuskipti á þungavinnuvélum skulu eingöngu fara fram á olíuheldu áfyllingsplani með frárennsli sem leitt er í olíuskilju. Heilbrigðiseftirlitið getur, ef aðstæður leyfa, samþykkt annan búnað sem uppfyllir markmið um ásættanlegar mengunarvarnir.
2.3. Þungavinnutæki skulu ávallt hafa gild skoðunarskírteini. Eingöngu brýnustu viðgerðir til að forða tjóni eða umhverfismengun mega fara fram á svæðinu. Tæki skulu að jafnaði flutt af svæðinu til viðgerða.
2.4. Gæta skal ítrustu varúðar við meðferð olíu og við olíuáfyllingar. Verði vart við olíuleka skal bregðast strax við með því að fjarlægja mengaðan jarðveg og tilkynna Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja um atburðinn. Fari niður meiri olía en starfsmenn ráða við að fjarlægja strax, skal slökkviliði gert viðvart um neyðarsíma 112.
2.5. Allt frárennsli sem getur verið mengað af olíuefnum skal leitt í olíuskilju. Olíuskilja skal tæmd eftir þörfum, þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári, og olíusora skal skila til móttökustöðvar fyrir slíkan úrgang.
2.6. Afla þarf leyfis heilbrigðiseftirlits fyrir frágang og staðsetningu á áfyllingsplani og olíuskilju. Ef díselrafstöð er notuð við starfsmannahús skal hún staðsett innandyra og með öruggri lekavörn.
2.7. Úrgangsolía, notaðar olíusíur og rafgeymar eru spilliefni og skulu fara í viðurkennda förgun jafnóðum. Geymsla á þessum efnum á svæðinu er óheimil.
3. Aðkoma og frágangur
3.1. Yfirbragð efnistökusvæðis skal vera snyrtilegt og uppfylla almenn öryggissjónarmið. Fjarlægja skal allt sorp og úrgang frá námusvæðum og koma í viðurkennda förgun. Öll brennsla og urðun úrgangs er bönnuð.
3.2. Rekstraraðili sér til þess að allur búnaður og hlutir sem kunna að berast inn á svæðið og eru rekstrinum óviðkomandi sé fjarlægður jafnóðum.
3.3. Gæta skal þess að starfsemin valdi ekki óþarfa ónæði eða hávaða og að fokgjörn jarðefni valdi ekki skaða eða röskun á umhverfi utan vinnslusvæðis. Ef þörf er á, skal skerma jarðefni af.
3.4. Ganga skal frá hverju svæði jafnóðum og efnistöku líkur. Frágangur skal vera í samræmi við kafla 3.6 í matsskýrslunni og miða að því að draga úr sjónrænum áhrifum efnistökunnar með því að líkja eftir efni og gróðri í óröskuðum svæðum í næsta nágrenni. Leggja skal áherslu á að gera námusár eins ósýnilegt og kostur er. Við efnistöku og frágang skal jafnframt fylgja leiðbeiningunum: Námur – efnistaka og frágangur, sem umhverfisráðuneyti o.fl. aðilar gáfu út árið 2002.
3.5. Á efnistökusvæðinu skulu hvergi myndast óþarfa tjarnir. Ef hætta er á að grunnvatn mengist skal grípa til viðeigandi ráðstafana og tilkynna til heilbrigðiseftirlitsins leiki minnsti grunur um slíka hættu. Bregðast skal við í samræmi við kröfur heilbrigðiseftirlitsins hverju sinni.
3.6. Fráveituvatn frá eldhús– og salernisaðstöðu skal leiða í safntank eða rotþró með siturlögn í samræmi við leiðbeiningar Umhverfisstofnunar. Fráveita skal tæmd reglulega og úrgangur losaður á viðurkenndum móttökustað.
3.7. Ef nota þarf sprengiefni á svæðinu skal fylgja reglum Vinnueftirlits ríkisins varðandi meðferð og geymslu þess. Sprengiefni skal ekki geymt á svæðinu.
3.8. Leggist starfsemin niður skal tilkynna það til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og búnaður fjarlægður í samráði við það og úrgangi og spilliefnum komið í viðurkennda förgun.
4. Eigið eftirlit, gjaldskylda og gildistaka
4.1. Eintak af starfsleyfi skal ávallt vera tiltækt á vinnustað.
4.2. Forráðamaður fyrirtækisins ber ábyrgð á að það starfi í samræmi við skilyrði í starfsleyfi þessu. Forráðamenn fyrirtækisins skulu kynna sér þau lög og reglur, sem við koma starfsemi fyrirtækisins. Jafnframt ber starfsleyfishafi ábyrgð á að kynna skilyrðin og þær kröfur sem hér koma fram, öðrum sem koma að efnisvinnslu og flutningum á svæðinu með einhverjum hætti, og sjá til þess að reglum sem gilda á svæðinu sé framfylgt.
4.3. Ef efnistöku verður ekki lokið við lok gildistíma starfsleyfis skal sækja um endurnýjun starfsleyfis. Frágangur efnistökusvæðis skal vera fullnægjandi að mati Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.
4.4. Rekstraraðili hefur eigið eftirlit og skráningu þar sem fram kemur m.a.:
1. Atvik er varða mengunarvarnir fyrirtækisins, s.s. rekstur og viðhald á mengunarvarnabúnaði, bilanir, mengunaróhöpp og kvartanir m.t.t. umhverfismála.
2. Notkun, flutningur og förgun spilliefna, sbr. reglugerð um spilliefni nr. 806/1999.
3. Magn olíusora og sands í olíuskiljum, mælt við reglulegt eftirlit, dagsetningar tæminga, magn og nafn dæluaðila.
4. Viðbragðsáætlun vegna mengunaróhappa, sbr. grein 4.5, skal vera til staðar á áberandi stað í starfsmannaaðstöðu námunar. Tilkynna skal eftirlitsaðila um öll meiriháttar frávik varðandi framleiðsluna, kvartanir og aðra þætti er geta varðað almannaheill.
4.5. Rekstraraðili skal hafa viðbragðsáætlun sem tekur á leka á bensíni, olíu og öðrum spilliefnum og hættulegum efnum. Fara skal eftir verklagi í matsskýrslu og viðbragðsáætlun Ístaks. Starfsmönnum skal kynnt áætlunin og þeir þjálfaðir í viðbrögðum samkvæmt henni. Áætlunin skal samþykkt af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Í viðbragðsáætlun skal koma fram:
1. Tegund mengunar og mesta magn mengandi efna sem gætu borist út í umhverfið.
2. Hvernig bregðast skuli við menguninni.
3. Nöfn og símanúmer viðbragðsaðila sem tilkynna skal um mengunaróhappið.
4.6. Starfsleyfi þetta er veitt til 12 ára í samræmi við 6. grein laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og ákvæði reglugerðar nr. 785/1999 og öðlast gildi við birtingu. Fyrirtækið skal greiða eftirlits- og starfsleyfisgjöld skv. gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.
Reykjanesbær xx.xxxx 2018,
Heilbrigðisnefnd Suðurnesja.