Starfsleyfisskilyrði fyrir fiskvinnslu Afa Fiskur ehf., Básvegur 6, 230 Reykjanesbæ.
22. 01. 2021
Starfsleyfisskilyrði fyrir sorphirðu og sorpflutningum, HP Gámar ehf., Verbraut 3, 240 Grindavík
04. 02. 2021
Frekari upplýsingar um blýmengun á Ásbrú

Vegna fjölda fyrirspurna um blýmengun á Ásbrú og varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll koma hér fram nánari upplýsingar er varða málefnið.

Eftirlit með vatnsgæðum á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli var alfarið á höndum Bandaríska varnarliðsins. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja (HES) hafði spurnir af því frá íslenskum starfsmönnum Varnarliðsins að á tíunda áratug síðustu aldar hefðu þarlend yfirvöld fundið talsverða blýmengun í neysluvatni í einhverjum byggingum á varnarsvæðinu. Engar upplýsingar bárust frá Varnarliðinu til HES um þessa mengun en ljóst var að orsökum hennar var að leita í innanhússlögnum bygginganna þar sem vatnsgæði vatnsbólana í Lágum voru fyrsta flokks. Embættið hefur enn þann dag í dag engar tölulegar upplýsingar um þessa mengun. Samkvæmt munnlegum upplýsingum frá íslenskum starfsmönnum Varnarliðsins gripu bandarísk yfirvöld til tvennskonar mótvægisaðgerða: annars vegar að skipta út eir-lögnum sem lóðaðar höfðu verið með blýblönduðu tini og blöndun sink-orþófosfats í neysluvatnið. Sink-orþófosfati er oft blandað í vatn til að verja vatnsleiðslur fyrir tæringu af völdum klórs en kunnugt er að klórblandað vatn er í flestum herstöðvum Bandaríkjamanna. Hátt klórmagn í vatni eykur losun blýs í leiðslum þar sem það er að finna. Við þetta bætast áhrif tæringar vatnslagna af völdum klórs sem enn geta aukið losun blýs. Notkun sink-orþófosfats minnkar tæringu lagna og þar með blýmengun vatnsins.

Heilbrigðiseftirlitinu tókst ekki að fá tölulegar upplýsingar frá Varnarliðinu um hvernig þessi aðgerð tókst.

Eftir að íslenska ríkið tók við byggingum á varnarsvæðinu var vatnsdreifikerfið selt til Hitaveitu Suðurnesja. Hitaveitan ákvað í samráði við HES að hætta blöndun klórs og orþófosfats í neysluvatnið. Þetta var byggt á verkfræðilegu áliti um að ekki væri þörf á sink-orþófosfati ef klór væri ekki til staðar í vatninu þ.e.a.s. að blýmengun myndi ekki aukast við þessar aðgerðir. Til að sannreyna þessar fullyrðingar tók HES vatnssýni úr dreifikerfinu á fjórum stöðum í febrúar 2007 og lét mæla blýinnihald. Öll sýnin komu vel út.

Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli lét taka sýni úr neysluvatni úr ýmsum byggingum á hennar vegum og rannsaka m.a. með tilliti til blýinnihalds. HES hefur ekki nákvæmar upplýsingar um hvenær sýnin voru tekin eða hvaða aðferðum var beitt við sýnatökuna, en líklegast voru þau tekin árið 2007. Af 15 sýnum sem tekin voru á mismunandi stöðum í byggingunum voru 10 undir greiningarmörkum, 4 með lítilega hækkuð gildi (miðað við neysluvatn dreifikerfisins) og eitt nálægt hámarksgildi reglugerðarinnar. Í því tilfelli var um að ræða krana í vinnurými sem var að sögn aftengdur í kjölfarið.

Aðkoma HES

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna vinnur í umboði heilbrigðisnefnda og framfylgir þeim lögum og reglugerðum sem löggjafinn ákveður þ.á.m. reglugerð um neysluvatn nr. 536/2001. Samkvæmt henni ber heilbrigðiseftirliti að hafa reglubundið eftirlit með vatnsveitum sem þjóna fleiri en 50 manns eða 20 heimilum/sumarbústöðum ásamt einkaveitum sem þjóna matvælaframleiðendum. HES hefur því eftirlit með öllum vatnsveitum á Suðurnesjum þ.m.t. á Ásbrú og athafnasvæði Landhelgisgæslunnar. Í 15. gr. reglugerðarinnar er skýrt tekið fram að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki eftirlit með neysluvatnskerfum húsa annarra en þeirra sem veita vatni til almennings s.s. skóla, heilbrigðisstofnana og matvælafyrirtækja. Í viðauka reglugerðarinnar eru m.a. tiltekin þau hámarksgildi örvera og efna í neysluvatni sem heilbrigðiseftirlitinu ber að framfylgja. Hvað blý varðar er hámarksgildi 10µg/l. Þetta hámarksgildi er það sama í öllum löndum Evrópusambandsins. Vert er að geta þess að aðildarríkin höfðu frest til ársloka 2013 til að tryggja að vatn héldist undir þessu hámarksgildi, en skyldi samt ekki fara yfir 25µg/l.

Hámarksgildið er í samræmi við ráðleggingar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar varðandi blý í neysluvatni og er talin nægileg vernd fyrir alla hópa, þar á meðal nýbura sem fá stóran hluta næringar sinnar í formi þurrmjólkurdufts sem blandað er í neysluvatn.[1]

Vatnsvernd á Ásbrú

Árið 2009, þegar ljóst var að taka ætti byggingar Varnarliðsins á Ásbrú í almenna notkun, hafði HES áhyggjur af því að neysluvatnskerfi sumra þeirra stæðist ekki íslenskar kröfur sérstaklega hvað varðaði blýinnihald. Þó svo að neysluvatnskerfi einkahúsnæðis væri ekki á könnu HES, eins og áður er vikið að, ákvað embættið, í samráði við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, að taka sýni úr völdum byggingum á Ásbrú. Öll sýnin reyndust innihalda blý sem var langt innan hámarksgilda reglugerðarinnar. Eitt sýni skar sig þó úr og var rétt innan hámarksgildis. Þó svo að blýinnihald neysluvatnsins væri innan hámarksgildis reglugerðarinnar var það töluvert yfir því magni sem mælist í dreifikerfinu.

Þegar örveru- eða efnainnihald neysluvatns fer við greiningu yfir hámarksgildi neysluvatnsreglugerðarinnar grípur HES til þeirra aðgerða sem þar er mælt fyrir um. Ekkert þeirra sýna sem greind voru árið 2009 var yfir löglegum mörkum hvað varðar efnainnihald og hafði því embættið ekki heimild til íhlutunar. Þess í stað skrifaði HES bréf til Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, sem fulltrúa eiganda bygginganna, og hvatti félagið til að fylgjast með vatnslögnum húsanna því blýmagn í þeim væri talsvert meira en í dreifikerfinu utan inntaksloka þó svo það væri innan hámarksákvæða reglugerðarinnar. Auk þessa skrifaði HES til bréf til Matvælastofnunar, sem lögum samkvæmt ber að samræma störf heilbrigðiseftirlita landsins, og bað um leiðbeiningar um frekari afskipti HES að málinu. Svör bárust frá hvorugum þessara aðila.

Grein Stundarinnar

Erfitt er að meta margar af þeim fullyrðingum sem fram koma í greininni þar sem greinarhöfundur tilgreinir engar skriflegar heimildir. Hér verður reynt að tína til það helsta sem snýr að íslenskum aðilum:

 10µg/l mörk Evrópusambandsins eru pólitísk og ekki í samræmi við eituráhrif blýs á mannslíkamann, sérstaklega börn.

Mörk ESB miðast við að 4 – 5 kg barn megi drekka allt að 750 ml af vatni sem inniheldur allt að 10µg/l af blýi án þess að það hafi heilsufarslegar afleiðingar fyrir barnið. Hvort þessi viðmið ESB eru í samræmi við nýjustu vísindi getur undirritaður ekki sagt fyrir um, en þó virðist þetta í samræmi við leiðbeiningar WHO frá 2003 og Vísindanefndar Evrópusambandsins frá 2011. Sérstök athygli er vakin á því að greinarhöfundur notar ranglega mg/l yfir blýmagn í neysluvatni. Hið rétta mælieining er µ/l sem er einn þúsundasti úr mg.

HES krafðist tafarlausra aðgerða af húseiganda (Þróunarfélaginu) vegna niðurstöðu sýnatöku frá 2009.

HES krafðist ekki aðgerða enda var blýinnihald sýnanna innan löglegra marka. Embættið sendi tilmæli til Þróunarfélagsins um að skoða betur lagnir í byggingum í sinni umsýslu.

Íbúar á Ásbrú fengu ekki upplýsingar um blýinnihald neysluvatns í kjölfar sýnatökunnar 2009.

Engir íbúar voru í þeim byggingum sem HES tók sýni úr árið 2009.

Ekki er getið um sýnatökur í Háaleitisskóla, aðrar en þær sem teknar voru vegna vinnslu blaðagreinarinnar í Stundinni.

HES tók sýni í Háaleitisskóla í apríl 2013 sem rannsökuð voru af ALS Scandinavia AB í Svíþjóð. Alls voru greind 80 mismunandi efni sem mögulega geta fundist í neysluvatni þ.m.t. blý. Blýinnihald (0,0119µ/l) reyndist vera langt undir hámarksgildi reglugerðarinnar

Greinarhöfundur hefur eftir Monu Hanna-Attisha barnalækni og prófessor „að ekkert magn af blýi í vatni er heilbrigt fyrir fólk“ og á væntanlega við að allt blý í neysluvatni, hversu lítið sem það er, er heilsuskaðlegt fyrir fólk.

Þar sem engar tilvísanir í rannsóknir fylgja þessari fullyrðingu er hvorki hægt að styðja hana eða hafna.

Varasamt var að hætta notkun sinkorþófosfats jafnvel eftir að hætt var að blanda klór í neysluvatnið.

Þetta stangast á við skoðanir verkfræðinga Hitaveitu Suðurnesja. Greinarhöfundur vitnar í framleiðanda efnisins en tilgreinir ekki neinar rannsóknir sem stutt gætu þessa fullyrðingu.

Aðkoma opinberra aðila að blýmengun í íbúðahúsum er mun minni á íslandi auk þess sem sýnatökutíðni er minni hér.

Þetta er rétt hjá greinarhöfundi og umhugsunarefni fyrir löggjafann.

Að lokum

Deilt er um hvaða sýnatökuaðferðir eigi að viðhafa þegar mæla á blý í neysluvatni. Bandaríkjamenn hafa notað svokalla „fyrstubunu aðferð“ þ.e.a.s. það blöndunartæki eða krani sem taka á sýni úr er innsiglað í tiltekinn tíma fyrir sýnatöku, oftast 1 sólarhring. Allar þær sýnatökur sem fjallað er um hér að ofan voru með þessari aðferð nema sýnatakan í Háaleitisskóla 2013. Með fyrstubunu aðferð mælist eingöngu það vatn sem í blöndunartækinu liggur ásamt aðliggjandi leiðslu. Það gefur því takmarkaða mynd af blýmagni í lagnakerfi hússins. Þar að auki gefur það ekki rétta mynd af því blýmagni sem einstaklingar neyta þar sem lang flestir láta renna um stund áður en þeir fá sér vatn að drekka og skola þar með út mengun sem kann að liggja í blöndunartækjunum sjálfum. Eins getur vatn verið blýmengað í einum krana á meðan vatn úr öðrum krönum hússins er í lagi. Gott dæmi um þetta er áðurnefnd sýnataka Flugmálastjórnar. ESB hefur, með sýnatökuleiðbeiningum í reglugerð frá 2015, mælt fyrir um að sýni séu tekin úr krönum án tillits til þess hvort þeir hafi verið notaðir nýlega eða ekki.

Keflavík 30. janúar 2021

Magnús H. Guðjónsson

Framkvæmdastjóri HES

[1]https://apps.who.int/iris/bitstream/handle/10665/75370/WHO_SDE_WSH_03.04_09_eng.pdf?sequence=1&isAllowed=y