Fræðsla fyrir hundaeigendur

1. Inngangur

Þessi síða er ætluð þeim sem eiga hund eða ætla að fá sér hann. Á síðunni er að finna upplýsingar um flest það sem hundaeigandi þarf að vita um hundahald, skyldur sínar gagnvart meðborgurum, yfirvöldum, umhirðu og meðferð hunda, útivistarsvæði þeirra o.fl.

Í bókabúðum og bókasöfnum er að finna ýmsar fræðandi bækur um hunda sem vert er að kynna sér jafnframt þessari síðu.

2. Að eignast hund

2.1 Skyldur og ábyrgð
Enginn ætti að fá sér hund án þess að kynna sér hvaða ábyrgð felst í því, auk þess þarf að skipuleggja komu hunds á heimili með nokkrum fyrirvara. Að eiga og annast hund krefst ábyrgðar. Nýr hundaeigandi verður að vita hvernig á að hirða og umgangast hundinn og þekkja skyldur sínar. Þeir sem hyggjast eignast hund hafa möguleika á að sækja svokölluð hvolpanámskeið til þess að læra að annast og skilja hvolpinn.

Áður en hundur kemur á heimilið þarf að:

• Afla samþykkis húseiganda fyrir veru hans í húsinu áður en hann kemur þangað.

• Fá heilbrigðisvottorð frá dýralækni.

• Athuga hvort hundurinn er bandormahreinsaður og bólusettur gegn smáveirusótt.

• Ef um kaup á hvolpi er að ræða er æskilegt að gengið sé frá kaupum með samningi sem tilgreinir kaupverð,
foreldra hundsins, dagsetningu ormahreinsunar og dýralæknisskoðunar.

2.2 Að velja kyn
Hvort sem valinn er hundur eða tík getur hundurinn orðið tryggur vinur.Tíkin er oft háðari eiganda sínum og hefur að jafnaði blíðara geðslag. Tík lóðar u.þ.b. tvisvar á ári og getur lóðatímabilið staðið í allt að 3 vikur. Í gæludýraverslunum fást tíkarbindi til að hlífa gólfteppum og öðrum húsgögnum við óþarfa blettum. Ekki eru þó allir hundar sem sætta sig við slíkan búnað. Ef tíkin á ekki að lóða eða fresta því þarf að hafa samband við dýralækni.

3. Umhirða

Á fyrstu mánuðunum er hundurinn mjög áhrifagjarn. Þá hefur samband eiganda og hvolps einna mest uppeldisleg áhrif á hann og því mikilvægt að nýta þennan tíma sem best. Gott er að hæla hvolpinum þegar hann stendur sig vel t.d. við umhirðu svo hann upplifi hana sem jákvæða stund. Þjálfunarnámskeið fyrir hunda geta verið hundaeigendum hjálpleg við uppeldið.

3.1 Fyrstu mánuðirnir
Þegar hvolpurinn kemur á heimili þarf hann að fá sitt eigið bæli. Best er ef það er á rólegum stað í húsinu gjarnan við rúm eigandans því hvolpinum er sérlega mikilvægt að fá umhyggju og upplifa traust fyrstu dagana. Þannig ætti ekki að loka hann einan inni yfir nótt. Breyta má staðsetningu bælisins þegar fram líða stundir og hundurinn hefur náð áttum á heimilinu.

Gera þarf ráð fyrir að hvolpurinn geri stykki sín innan dyra fyrstu 1-2 mánuðina og er æskilegt að hann geti haft svæði þar sem slíkt er leyfilegt. T.d. horn í þvottahúsi sem þakið er dagblöðum. Jafnan á að skamma hann með einsatkvæðisorði ef hann gerir stykki sín þar sem það er ekki leyfilegt og í framhaldi af því að fara með hann á þann stað þar sem ætlast er til að hann geri þau. Aldrei ætti að væta trýni hans með hlandi eins og gamlar kerlingabækur segja. Það má treysta því að hundurinn læri sína lexíu þegar hann hefur þroska til.

3.2 Einvera
Það á aldrei að skilja lítinn hvolp eftir einan. Smám saman er hægt að venja hann á að vera einan stutta stund í senn. Hundar eru í eðli sínu félagsverur og fjölskyldan er þeirra hópur. Fullorðinn og vel agaður hundur ætti að geta verið einn 4-5 klst. á dag. Helst ætti að tvískipta þeim tíma.

3.3 Fóður og bætiefni
Seljandi (ræktandi) á að láta fylgja með hundinum skrá um fóður og bætiefnaþörf hundsins/hvolpsins. Magn og hlutfall efna þurfa að vera rétt í fæðunni. Hundurinn þarf ávallt að hafa aðgang að fersku drykkjarvatni.

3.4 Loppur
Ef hundurinn gengur á söltuðum gangstígum og götum að vetri til er ráðlegt að skola loppurnar vel með vatni þegar heim er komið og þurrka síðan.

Þegar frost er þarf að klippa hárin milli klónna og þófanna svo að þau kleprist ekki saman og angri hundinn.

3.5 Klær
Best er að venja hvolpa strax við að klærnar séu klipptar reglulega. Þá verður klipping þeirra ekki vandamál þegar hundurinn er fullorðinn. Sérstakar klóklippur fást í gæludýraverslunum. Það er best að fá upplýsingar hjá dýralækni hvernig á að klippa klærnar. Ef hundurinn upplifir sársauka við klippingu t.d. ef klippt er í kviku er hætt við að honum finnist ekki mjög spennandi að láta klippa á sér klærnar næst. Við útiveru slitna klærnar eðlilega og þófarnir fá þá líka nauðsynlega þjálfun.

3.6 Feldur
Á flestum hundum þarf að hirða feldinn mjög vel. Rétt er að venja hvolpinn strax á burstun og böðun.

3.7 Tennur
Alveg eins og hjá mönnum verður að hirða tennur hundsins vel. Þær þarf að bursta reglulega með mjúkum tannbursta eða þvottaklút. Dýralæknar gefa ráð um hvernig hreinsa má tannstein.

3.8 Hundur í farartæki
Hundur í bíl þarf að hafa nægilegt rými til þess að geta snúið sér við. Hann á að vera í bílnum þar sem hann truflar ekki ökumanninn. Á langferðum verður að hleypa hundinum út með jöfnu millibili. Ef mjög kalt eða heitt er í veðri má aðeins hafa hundinn stutta stund í senn í kyrrstæðum bíl. Ef hundurinn er einn í kyrrstæðum bíl, þarf að draga hliðarrúðu örlítið niður svo að hann fái ferskt loft. Hvorki má binda hund við ökutæki né flytja hann í lokuðu farangursrými.

4. Um skyldur hundaeiganda

4.1 Að þrífa upp eftir hundinn
Eigandi hunds verður jafnan að hafa plastpoka meðferðis þegar hundurinn er viðraður til þess að þrífa upp eftir hann. Nauðsynlegt er að þrífa alltaf upp eftir hundinn á almannafæri. Þannig kemur maður í veg fyrir að aðrir stigi í hundaskít og stuðlar jafnframt að hreinu umhverfi. Það bitnar á öllum hundaeigendum ef einn hundaeigandi þrífur ekki upp eftir hundinn sinn.

4.2 Taumskylda
Lausaganga hunda á Suðurnesjum er bönnuð.  Hundaeftirlitsmaður á vegum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja handsamar hunda sem ganga lausir.  Hundaeigendum gefst kostur á að leysa út hundinn gegn greiðslu áfallins kostnaðar.

Hundur á alltaf að vera í taumi á almannafæri í fylgd með aðila sem hefur fullt vald yfir honum. Hundinum er þó eðlilegt að fá að vera laus og ætti að hleypa honum frjálsum sem oftast þar sem slíkt er leyfilegt. Enn hafa ekki verið opnuð sérstök svæði á eftirlitssvæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja fyrir lausa hunda en í hundasamþykktum sveitarfélaganna eru ákvæði um að bæjarstjórnir geti auglýst slík svæði. Túlka verður ákvæði samþykktanna svo að leyfilegt sé að hleypa hundum lausum á auðum og óbyggðum svæðum fjarri íbúðabyggð.

4.3 Bannsvæði
Ekki er leyfilegt að fara með hunda inn á skólalóðir og inn í skóla, samkomuhús, sundstaði, barnaleikvelli, matvöruverslanir eða aðra opinbera staði þar sem matvæli eru höfð um hönd. Undanþága er þó veitt vegna hjálparhunda fyrir fatlaða.

Ávallt verður að taka tillit til viðkvæmra varpsvæða fugla á vorin og er ástæða til þess að vekja sérstaklega athygli hundaeigenda á því að umferð hunda er bönnuð á vorin og fyrri hluta sumars á svæðinu við Gróttu á Seltjarnarnesi sem var lýst friðland árið 1997 vegna fjölbreytts fuglalífs. Í Mosfellsbæ er sérlega fjölbreytt fuglalíf við Leirvoginn og full ástæða til þess að hvetja hundaeigendur til þess að hlífa þessu svæði við ágangi hunda á varptíma.

4.4 Veikindi
Ef hundurinn er sljór, étur ekki, hagar sér öðruvísi en venjulega eða ef líkamshiti hans fer yfir 39°C (mælt með venjulegum hitamæli í 2 mínútur) þarf að hafa samband við dýralækni. Þegar hundurinn verður gamall, slasast illa eða veikist alvarlega verður eigandi hans að taka ákvörðun um að aflífa hann. Þetta er oft erfið ákvörðun fyrir hundaeigendur en þess skal ávallt gætt að hundurinn líði ekki, t.d. vegna langvarandi sjúkdóms. Dýralæknar aflífa hunda. Það er gert á sársaukalausan hátt, dýrið er svæft rólega og óttalaust jafnvel inni á heimili hundsins ef þess er óskað.

4.5 Flugeldar
Flestir hundar er viðkvæmir fyrir skyndilegum hávaða eða snöggum hvellum og geta brugðist við með því að rjúka ósjálfrátt og stefnulaust af stað. Ekki ætti því að hafa hundinn utandyra um áramót. Sumir hundaeigendur sem eiga hunda sem eru sérlega viðkvæmir fyrir hávaða taka á það ráð að fá róandi lyf hjá dýralækni fyrir hunda sína.

4.6 Hundsbit
Hundsbit geta verið hættuleg. Sá sem verður fyrir biti skal strax leita læknis. Ef hundur bítur mann getur eigandi átt von á kæru frá þeim bitna eða aðstandanda hans. Heimilt er að aflífa þegar í stað hættulegan hund og hund sem bítur. Hundaeiganda er þó heimilt að leita álits héraðsdýralæknis áður en ákvörðun um aflífun er tekin. Hafi eigandi ástæðu til þess að ætla að hundur hans sé grimmur eða varasamur skal hann sjá til þess að hundur hans sé ávallt mýldur utan heimilis síns

5. Skráning hunds

5.1. Skráning
Skylt er að skrá hund hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja á þar til gerðum eyðublöðum, ekki síðar en mánuði eftir að hann er tekinn inn á heimili. Hvolpa skal skrá fyrir þriggja mánaða aldur. Vottorð dýralæknis um að hundur hafi verið hreinsaður og örmerktur skulu fylgja umsókn um skráningu.

Ef hundur dvelst tímabundið í sveitarfélaginu þarf að skrá hann til bráðabirgða en slík skráning gildir til 6 mánaða í senn.

Við skráningu hundsins fær hann merki þar sem fram kemur að hann sé örmerktur. Merki þetta ber að setja á hálsól hundsins.  Greiða þarf sérstakt gjald fyrir hundinn árlega, gjald þetta er sett skv. sérstakri gjaldskrá í hverju sveitarfélagi og á að standa undir kostnaði við hundaeftirlit og skráningu. Gjalddagi leyfisgjalds er 1. mars og eindagi 1. mai ár hvert

Hundaeiganda ber að tilkynna Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja um aðsetursskipti og ef hundurinn drepst. Þannig má komast hjá óþarfa innheimtu skráningargjalda og vottorða, auk þess sem eiganda er skylt að greiða af hundi sínum meðan að hann er á skrá í bæjar/sveitarfélaginu.

5.2. Tryggingar
Eins og stendur er ábyrgðartrygging innifalin í skráningargjaldi. Tryggingin nær til þess tjóns sem hundurinn kann að valda öðrum en eiganda og fjölskyldu hans.

5.3 Ormahreinsun
Rétt er að árétta mikilvægi árlegrar hreinsunar til að koma í veg fyrir að sníkjudýr, sem lifa í meltingarfærum hunda, geti borist í menn. Hundaspóluormar eru með algengari sníkjudýrum í hundum. Lífsferill þeirra er í stuttu máli þannig að egg þeirra berast með saur hundsins. Í egginu þroskast lirfa og getur hún eftir að hafa náð ákveðnum þroska lifað í egginu í mánuði og jafnvel árum saman. Berist egg þroskaðrar lirfu niður í meltingarveg manna eða annarra dýrategunda tekur hún ákveðnum breytingum og kemur sér fyrir í blóðrás og fer síðan á flakk um vefi líkamans. Þetta svonefnda lirfuflakk getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir menn.

Eigendum hvolpa er sérstaklega bent á að láta hreinsa hvolpa sína reglulega þar sem hvolpar fæðast með spóluorma í sér hafi móðir þeirra verið sýkt. Hvolpar hafa ekki mótefni fyrir spóluormum og geta ormar því náð sér verulega á strik í hvolpum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja veitir fúslega frekari upplýsingar um þessi mál.

6. Annað

6.1 Hjálparhundar
Blindrahundur er dæmi um hvernig sérþjálfaður hundur hjálpar fólki. Hlutverk slíks hunds er að leiða hinn sjóndapra framhjá hættum og hindrunum í umhverfinu. Góð samvinna verður að vera milli hundsins og hins blinda ef slíkt á að koma að gagni. Þegar blindrahundur er að störfum er hann með hvítt beisli og þá má alls ekki trufla hann. Blindrahundur er undanþeginn ýmsum reglum sem almennt gilda um aðgengi hunda. Hann má yfirleitt fylgja eiganda sínum hvert sem er, einnig þar sem venjulegir hundar mega ekki vera eins og t.d. í flugvélum og opinberum byggingum, sbr. kaflann um bannsvæði.

6.2 Hundahótel
Á Suðurnesjum er að finna eitt hundahótel. Hótelið er að Flugvöllum  í Reykjanesbæ, símanúmer 421 0050. Gerð er krafa um að hundar sem teknir eru í gæslu hafi verið bólusettir gegn smáveirusótt.

6.3 Einangrun
Allir innfluttir hundar til Íslands verða að vera í einangrun í ákveðinn tíma. Einangrunarstöðin er í Hrísey og þurfa eigendur þessara hunda að hafa samband við yfirdýralækni (landbúnaðarráðuneytið) til þess að fá frekari upplýsingar.