Starfsleyfisskilyrði fyrir svínabú og svínasláturhús

Skilgreiningar:

Forþró er þró þar sem blauthluta svínamykjunnar er safnað áður en honum er veitt til sjávar um fráveitu.

Fráveita er fráveitulögn sem veitir blauthluta svínamykjunnar, afrennsli úr rotþró og frárennsli frá sláturhúsi til sjávar.

Hreinsibúnaður samanstendur af skiljubúnaði sem skilur mykjuna í blauthluta og þurrhluta og forþró þar sem þurrefni getur fallið til botns.

 

1. gr. Gildissvið

1. 1. Starfsleyfi þetta gildir fyrir svínabú og fellur úr gildi ef skipt er um eigendur eða húsnæði.

1. 2. Starfsleyfið gildir í sex ár frá útgáfudegi.

1. 3. Verði meiri háttar breytingar á rekstrinum eða breyting sem gæti leitt til aukinnar mengunar að mati Heilbrigðiseftirlitsins ber að sækja um starfsleyfi að nýju.

1. 4. Heimilt er að endurskoða starfsleyfisskilyrðin ef í ljós koma annmarkar á framkvæmd þeirra eða í ljós koma skaðleg áhrif á umhverfi sem ekki voru ljós fyrir. Sama gildir ef fram koma almennar kröfur eða ný tækni er leiða til bættra mengunarvarna.

 

2. gr. Meðferð hættulegra efna

2. 1. Geyma skal öll hættuleg efni og efnasambönd með öruggum hætti.

2. 2. Hættuleg efni skulu meðhöndluð af varúð og þess vandlega gætt að þau hvorki berist í niðurföll né geti á annan hátt valdið umhverfisskaða eða heilsutjóni.

2. 3. Starfsfólk skal hafa fullnægjandi þekkingu á eitrunarhættu og eiginleikum þeirra efna sem það vinnur með og skulu upplýsingar þar að lútandi ávallt vera tiltækar á vinnustaðnum.

2. 4. Safna skal öllum hættulegum efnum s.s. olíusora, lyfjaleifum, umbúðum lyfja og sprautunálum og skila reglulega til aðila sem hafa starfsleyfi til að taka við slíkum úrgangi. Við afhendingu skal haldið eftir vottorði fyrir móttökunni þar sem fram kemur magn (kg, l), og gerð úrgangs.

 

3. Mengunarvarnir og -búnaður

3. 1. Rekstraraðila er skylt að halda húsnæði og lóð snyrtilegu. Sorphirslur og ílát undir úrgang skulu standast kröfur heilbrigðiseftirlitsins.

3. 2. Takmarka skal hávaða frá starfseminni eftir því sem kostur er.

3. 3. Takmarka skal loftmengun frá starfseminni eins og kostur er. Ef í ljós kemur engu að síður að loftmengun frá starfseminni veldur fólki á nærliggjandi svæði óþægindum, getur heilbrigðisnefnd krafist úrbóta.

3. 4. Ísogsbúnað eða -efni skal hafa til taks og nota ef spilliefni leka á gólf.

 

4.  gr. Um úrgang

4. 1. Rekstraraðilar svínabúsins skulu markvisst og stöðugt vinna að því að draga úr úrgangsmyndun eins og kostur er.  Stöðugt skal reynt að finna leiðir til endurnýtingar á úrgangi og ber fyrirtækinu að tileinka sér þau endurnýtingarúrræði sem eru fyrir hendi hverju sinni.

4. 2. Allt frárennsli frá starfsmannaaðstöðu og salernum á vinnusvæði skal leitt í rotþró.  Frárennsli úr rotþró skal leitt til sjávar um fráveitu.  Um uppsetningu og frágang rotþróar skal farið eftir leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins um rotþrær eða öðrum stöðlum í samráði við HES.  Frárennsli frá rotþró skal leitt til sjávar 5 metra niður fyrir meðalstórstraumsfjöruborð eða 20m út frá meðalstórstraumsfjörumörkum.

4. 3. Úrgangur svo sem dýrahræ skulu flutt til eyðingar eða endurvinnslu. Urðun og brennsla á úrgangi er óheimil á athafnasvæði svínabúsins.  Sérstaklega skal gæta þess að meindýr og vargfugl komist ekki í æti frá svínabúinu.

Svínamykja

4. 4. Forþró skal a.m.k. rúma sem nemur eins mánaða uppsafnaðri svínamykju.  Forþróin skal þannig úr garði gerð að unnt sé að dæla eða veita botnfalli úr henni í skiljubúnað.

4. 5. Þurrefnið skal gert aðgengilegt til flutninga og skal rakainnihald þurrefnisins að jafnaði ekki vera yfir 75%.  Að jafnaði skal þurrefni komið reglulega til aðila með starfsleyfi til meðhöndlunar á þess háttar úrgangi.  Þó skal búið hafa aðstöðu til þess að geyma þurrefni sem nemur fimm mánaða uppsöfnun.  Búið skal tryggja að við flutninga og geymslu verði ekki um fok á þurrefni að ræða.  Komi það til að nota þurfi aðrar leiðir til förgunar á þessum úrgangi skal það gert í samráði við HES.

4. 6. Rekstraraðili svínabúsins skal sjá til þess að varahlutir fyrir mykjuskilju séu ávallt til staðar í búinu þannig að rekstraröryggi skiljunnar sé eins tryggt og á verður kosið.

4. 7. Hreinsibúnaður skal að jafnaði skilja 80% af svifögnum frá mykjunni.  Blauthluti mykjunnar skal leiddur til sjávar eins og um skólp eftir eins þreps hreinsun væri að ræða.  Útrásarop skal vera a.m.k. fimm metra niður fyrir meðalstórstraumsfjöruborð eða tuttugu metra út frá meðalstórstraumsfjörumörkum.  Þannig skal gengið frá fráveitu að ekki verði um setmyndun við útrásarop að ræða.

Sláturhús

4. 8. Fastur úrgangur úr sláturhúsi skal settur í vökvahelda lokaða gáma.  Gámar skulu þrifnir eftir tæmingu og tryggja skal að ekki stafi ólykt af þeim.

4. 9. Fitu og þurrefni skal skilja frá blóðvatni og öðrum fljótandi úrgangi frá sláturhúsi.  Fitu og þurrefni skal komið fyrir í gámum en blauthluta skal veitt til sjávar um fráveitu.

4. 10. Unnið skal að því að finna blóði, sem og öðrum úrgangi, farveg til nýtingar t.d. í dýrafóður.

 

5. gr.  Starfsemi hætt

5.1. Tilkynna skal Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja ef starfsemi fyrirtækisins er lögð niður.

5.2. Leggist starfsemin niður skal öllum hættulegum efnaleifum og ónothæfum efnum skilað til móttökustöðvar fyrir spilliefni.

 

6. gr.  Ýmis ákvæði

6.1. Eintak af skilyrðum þessum og viðkomandi lögum og reglum skulu ávallt tiltæk á vinnustað.

6. 2. Forráðamaður fyrirtækisins ber ábyrgð á að það starfi í samræmi við skilyrði þessi.

6. 3. Bústjóri skal halda sérstaka skráningarbók fyrir úrgang frá búinu, þar með talið þurrhluta mykju, sláturúrgang og spilliefni og skal gerð hennar unnin í samvinnu við HES.  Svínabúið skal fyrir 1. mars ár hvert senda Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja skýrslu þar sem a.m.k. eftirfarandi kemur fram:

  • Magn (tonn) þurrhluta af mykju sem  féllu til á árinu og hvaða farvegur var notaður fyrir þennan úrgang.
  • Magn og tegundir spilliefna sem féllu til á árinu.
  • Gera skal grein fyrir með hvaða hætti búið hefur unnið að því að uppfylla grein 4.1 á árinu.
  • Gera skal grein fyrir mengunarslysum hafi þau átt sér stað, rekstri og bilunum á skiljubúnaði fyrir mykju, rekstri og bilunum á skiljubúnaði fyrir frárennsli sláturhús

7. gr. Ákvæði til bráðabirgða

7.1.  Ákvæði 4. greinar. um úrgang taka gildi þann 15. september 2001.

 

Samþykkt af Heilbrigðisnefnd Suðurnesja þann 14. júní 2001.

Aftur á síðu um starfsleyfisskilyrði.


157pxl.gif (826 bytes)
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja
Fitjum 260 Njarðvík
157pxl.gif (826 bytes)
Sími: 421 3788
Fax: 421 3766
Vefumsjón: Bergur Sigurðsson
Vefhönnun: Sverrir Ásmundsson

157pxl.gif (826 bytes)

HEIM