Starfsleyfisskilyrði fyrir malbikunarstöð Íslenskra aðalverktaka.

1. gr. Gildissvið

1.1        Starfsleyfi þetta gildir fyrir allt að 100.000 tonna árs framleiðslu á malbikunarstöð Íslenskra aðalverktaka á Keflavíkurflugvelli.

1.2        Starfsleyfið er gefið út samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

1.3        Starfsleyfishafi er Íslenskir aðalverktakar (kt. 660169-2379) og er leyfið óframseljanlegt.

1.4        Starfsleyfið gildir í tíu ár frá útgáfudegi.

1.5         Heimilt er að endurskoða starfsleyfisskilyrðin á gildistíma starfsleyfisins ef í ljós koma annmarkar á þeim við rekstur eða eftirlit.

1.6         Áformi starfsleyfishafi að gera umtalsverðar breytingar á rekstri, ber að tilkynna Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja um áformin, sbr. 18. gr. rg. 785/1999.  Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja mun þá leggja mat á hvort sækja þurfi að nýju um starfsleyfi fyrir starfsemina.

1.7         Um notkun og meðferð hættulegra efna fer samkvæmt reglugerð nr. 236/1990, um flokkun, merkingu og meðferð hættulegra efna.

1.8         Verði vart ófyrirséðrar mengunar frá verksmiðjunni, ber starfsleyfishafa að hindra áframhaldandi útstreymi og dreifingu mengunarefna og standa straum af kostnaði sem hlýst af hreinsun.

1.9         Komi fram skaðleg áhrif á umhverfi verksmiðjunnar eða hætta sem ekki var áður ljós er Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja heimilt að endurskoða starfsleyfisskilyrðin.  Skilyrðin skulu auk þess endurskoðuð að jafnaði á fjögurra ára fresti.

1.10      Auk skilyrða hér að neðan gilda almenn starfsleyfisskilyrði, sbr. auglýsingu umhverfisráðuneytisins nr. 582/2000, um starfsemina.

2. gr. Mengunarvarnir

2.1         Brennaraloft skal hreinsa með vothreinsibúnaði. Ryk í útblásturslofti má ekki valda ónæði eða óþrifnaði í nágrenni verksmiðjunnar.  Töluleg gildi um rykmagn skulu sett inn í starfsleyfi þetta sumarið 2003, sbr. bráðabirgðaákvæði 5.1.

2.2         Útblástursloft frá hreinsibúnaði skal leiða út í gegnum skorstein a.m.k. 9 m á hæð. Skorsteinninn skal þannig útbúinn að auðvelt sé að mæla ryk í útblásturslofti.  Útstreymishraði úr skorsteini skal vera 20 m/s (± 10%).

2.3         Áætlun skal vera til sem tryggir eðlilegan rekstur og viðhald rykhreinsibúnaðar. Fylgst skal með magni ryks í útblásturslofti með mælingu í skorsteini a.m.k. einu sinni á ári. Mælingin skal gerð við venjulegar aðstæður að sumarlagi. Niðurstöður mælinganna skulu sendar til eftirlitsaðila.

2.4         Frágangur á tönkum og leiðslum fyrir eldfima vökva skal vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.

2.5         Allt frárennsli sem getur verið mengað af olíuefnum skal leitt í olíuskilju. Olíuskiljur skulu skoðaðar reglulega og tæmdar eftir þörfum.  Olíusora skal skilað til móttökustöðvar fyrir slíkan úrgang.  Við skil á olíusora skal haldið eftir kvittun frá móttökuaðila.

Frárennsli frá rykhreinsibúnaði.

2.6         Frárennsli frá rykhreinsibúnaði skal renna í gegnum þar til gerða setþró á neðan við stöðina.  Útrásin úr setþrónni skal vera efst í henni þannig að ryk setjist til.  Veitt skal úr setþró yfir í afmarkaðan losunarpytt þar sem frekari setmyndun á sér stað.  Ryk úr setþró og losunarpytti skal fjarlægt eftir þörfum og eigi sjaldnar en svo að tryggt verði að setmyndun verði ekki utan við losunarpyttinn.

 

3. gr. Starfshættir og umhverfismarkmið

3.1         Fyrirtækið skal kappkosta við að draga sem mest úr því álagi sem fyrirtækið veldur með hráefnisnotkun, afurðum og starfsháttum sínum. Stuðlað skal að góðri nýtingu hráefna og að því að losun mengunarefna frá verksmiðjunni verði eins lítil og kostur er.

3.2         Fyrirtækið skal setja sér umhverfismarkmið og starfa samkvæmt þeim. Velja má staðlað umhverfisstjórnunarkerfi, t.d. ÍST EN ISO 14001:1996 eða þátttöku í umhverfismálakerfi ESB sbr. reglugerð nr. 321/1996, eða starfa samkvæmt eigin kerfi.

 

4. gr. Innra eftirlit og upplýsingagjöf

4.1         Upplýsingar er lúta að eftirliti með fyrirtækinu skal skrá með skipulögðum og aðgengilegum hætti þar með talið:

a)      kvittanir fyrir skilum spilliefna

b)      eigið eftirlit fyrirtækisins með mengunarvarnabúnaði

c)      öll mengunaróhöpp sem verða.

5. gr. ákvæði til bráðabirgða

5.1       Fyrir 1. júlí 2003 skal fyrirtækið mæla rykmagn í útblæstri verksmiðjunnar.  Mælingin skal framkvæmd af aðilum sem Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja samþykkir og skal haft samráð við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja um framkvæmdina.  Á grundvelli þessara mælinga verða sett inn töluleg gildi um hámarks rykmagn í útblæstri, sbr. gr. 2.1.  Um aðstæður við mælingu vísast einnig til greinar 2.3.

Auglýst í Suðurfréttum 28. maí 2003.  Frestur til að gera athugasemdir er fjórar vikur.

Aftur á síðu um starfsleyfisskilyrði.


157pxl.gif (826 bytes)
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja
Fitjum 260 Njarðvík
157pxl.gif (826 bytes)
Sími: 421 3788
Fax: 421 3766
Vefumsjón: Bergur Sigurðsson
Vefhönnun: Sverrir Ásmundsson

157pxl.gif (826 bytes)

HEIM