Tillaga að starfsleyfisskilyrðum fyrir Hitaveitu Suðurnesja (680475-0169).

Auglýst í staðarblaði þann 6. maí 2004,
festur til athugasemda er fjórar vikur.

 

1. gr. Gildissvið

1.1       Starfsleyfi þetta gildir fyrir jarðhitanýtingu við orkuver 2, 3, 4 og 5 í Svartsengi.

1.2       Eigi má breyta eða auka þennan atvinnurekstur ef það getur leitt til aukinnar og eða annarrar mengunar nema að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja sem þá ákvarðar hvort gefa þurfi út nýtt starfsleyfi, sbr. 18. gr. rgl. 785/1999.

1.3       Heimilt er að endurskoða starfsleyfisskilyrðin ef í ljós koma annmarkar á framkvæmd þeirra eða fram koma almennar kröfur eða ný tækni er leiða til bættra mengunarvarna.  Sbr. 21. og 13. gr. rgl. 785/1999.

 

2. gr. Almenn atriði

2.1      Starfseminni skal þannig hagað að hún valdi ekki nágrönnum eða fólki í nærliggjandi húsakynnum óþægindum vegna lyktar eða ónæðis.

2.2       Takmarka skal hávaða frá starfseminni eftir því sem kostur er. Hávaði við lóðarmörk skal uppfylla viðmiðunarmörk fyrir hávaða skv. reglugerð nr. 933/1999.

2.3       Rekstraraðila er skylt að halda húsnæði og lóð snyrtilegu. Sorphirslur og ílát undir úrgang skulu standast kröfur heilbrigðiseftirlitsins.

 

3. gr. Spilliefni, sbr. rgl. 806/1999

3.1       Spilliefni er úrgangur sem merktur er með stjörnu * í I. viðauka með reglugerð nr. 810/1999 um skrá yfir spilliefni og annan úrgang og einnig úrgangur sem hefur einn eða fleiri eiginleika sem tilteknir eru í III. viðauka með tilvitnaðri reglugerð.  Sem dæmi má nefna eftirfarandi:

·     Úrgangsolíur og olíuleifar s.s. smurolíur, hydriolískar olíur, bensín, smurfeiti og díselolíur.

·     Lökk, þynnir, önnur lífræn leysiefni og afgangar þessara efna s.s. málningarleifar í dósum.

·     Hreinsiefni fyrir vélar og vélarhluti.

·     Olíusíur.

·     Rafgeymar og rafhlöður.

·     Annað sem valdið getur mengun.

3.2       Draga skal úr myndun spilliefna eins og unnt er með því að nota umhverfisvæn efni eftir því sem kostur er á.

3.3      Óheimilt er að blanda spilliefnum við annan úrgang eða losa þau í fráveitu.  Ekki skal blanda saman mismunandi flokkum spilliefna.

3.4       Umbúðir spilliefna skal merkja með viðeigandi hætti.  Á umbúðunum skulu a.m.k. koma fram upplýsingar um eiginleika, samsetningu og magn úrgangsins.

3.5       Spilliefnum skal safnað í lokuð traust ílát sem henta viðkomandi efnum og þau tryggilega varðveitt þar til þau eru flutt til eyðingar eða meðhöndlunar.

3.6       Spilliefni skal ekki geyma til langframa á umráðasvæði fyrirtækisins. Spilliefnum skal skilað reglulega til aðila með leyfi til móttöku eða flutnings á viðkomandi úrgangi.  Fyrirtækinu er sjálfu heimilt að annast flutninginn sé búnaður og flutningatæki fullnægjandi að mati heilbrigðiseftirlits.

3.7       Þegar fyrirtækið afhendir spilliefni til endurvinnslustöðvar eða flutningsaðila skal það halda eftir vottorði fyrir móttökunni þar sem fram kemur magn (kg, l), flokkun og gerð úrgangs.  Vottorð þessi skulu geymd í a.m.k.4 ár og liggja frammi við eftirlit í fyrirtækinu.

3.8       Leggist starfsemin niður skal öllum hættulegum efnaleifum og ónothæfum efnum skilað til móttökustöðvar fyrir spilliefni.

 

4. gr. Meðferð hættulegra efna

4.1       Geyma skal öll hættuleg efni og efnasambönd með öruggum hætti.

4.2       Hættuleg efni skulu meðhöndluð af varúð og þess vandlega gætt að þau berist ekki í niðurföll, valdi umhverfisskaða eða heilsutjóni.

4.3       Starfsfólk skal hafa fullnægjandi þekkingu á eitrunarhættu og eiginleikum þeirra efna sem það vinnur með og skulu upplýsingar þar að lútandi ávallt vera tiltækar á vinnustaðnum.

4.4       Um varnir gegn skaðlegum áhrifum á starfsmenn og starfsumhverfi fer samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

 

5. gr. Mengunarvarnir og búnaður á verkstæðum Hitaveitunnar

5. 1.    Ef þvo á vélar og tæki eða hluta þeirra utandyra skal það gert á föstu vökvaheldu plani með afrennsli um olíuskilju. Fyrirtækið skal ávallt leitast við að velja sem minnst mengandi aðferð til vélarþvottar s.s. lokuð kerfi án leysiefna t.d. gufuþvott og háþrýstiþvott.

5. 2.    Eftirlit og viðhald með vélum og mengunarvarnabúnaði skal ávallt vera með þeim hætti að ekki eigi sér stað óleyfileg útlosun.

5. 3.    Ísogsbúnað eða ísogsefni skal hafa til taks og nota ef spilliefni leka á gólf.

5. 4.     Frárennsli af gólfum, þar sem olía er meðhöndluð, skal leitt um olíuskilju. Olíuskilja skal skoðuð reglulega, en þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári, og tæmd eftir þörfum.

 

6. gr. Vatnsvernd á Lága svæðinu

6.1       Innan brunnsvæðis er öll umferð önnur en sú sem snýr að viðhaldi og rekstri dæluhúsa, háspennulagna og annarrar starfsemi Hitaveitu Suðurnesja bönnuð.  Allar akstursleiðir inn á brunnsvæði skulu vera læstar.

6.2      Til þess að tryggja að óviðkomandi hafi ekki aðgang að dæluskúrum skulu þeir læstir og þannig búnir að í stjórnstöð Hitaveitunnar sé hægt að fylgjast með umferð um þá.

 

7. gr. Fráveitumál

7.1      Allt frárennsli frá starfsmannaaðstöðu og salernum á vinnusvæði skal leitt í rotþró. Um fyrirkomulag og staðsetningu rotþróa skal fara samkvæmt útgefnum leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins og fyrirmælum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.

7.2       Jarðsjó, öðrum en þeim sem losaður er í Bláa lónið, skal dælt niður í vatnsgeyminn að nýtingu lokinni.

7.3       Þannig skal staðið að losun á jarðsjó í Bláa lónið að komið verði í veg fyrir að yfirborð lónsins hækki og flatarmál þess aukist frá því sem nú er.

 

8. gr. Ýmis ákvæði

8.1      Eintak af skilyrðum þessum skulu ávallt tiltæk á vinnustað.

8.2      Forráðamaður fyrirtækisins ber ábyrgð á að það starfi í samræmi við skilyrði þessi.

 

Auglýst í staðarblaði þann 6. maí 2004.

Aftur á síðu um starfsleyfisskilyrði.


157pxl.gif (826 bytes)
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja
Fitjum 260 Njarðvík
157pxl.gif (826 bytes)
Sími: 421 3788
Fax: 421 3766
Vefumsjón: Bergur Sigurðsson
Vefhönnun: Sverrir Ásmundsson

157pxl.gif (826 bytes)

HEIM