TILLAGA að starfsleyfi fyrir
Hringrásar ehf. í Helguvík

Auglýst í Víkurfréttum þann 23. mars 2005. Frestur til athugasemda er fjórar vikur.

Um starfsemina gilda einni g almenn starfsleyfisskilyrði, sbr. auglýsingu umhverfisráðuneytisins nr. 582/2000, og samræmd starfsleyfisskilyrði fyrir móttökustöðvar fyrir ökutæki sem áformað er að farga.

1. Gildissvið

1.1 Starfsleyfið gildir fyrir móttöku og endurvinnslu brotamálma og annarra endurnýtanlegra úrgangsefna á vegum Hringrásar ehf. (420589-1319) innan lóðar fyrirtækisins að Berghólabraut 27 í Helguvík, Reykjanesbæ. Leyfið er óframseljanlegt.

1.2 Meðhöndlun spilliefna innan athafnasvæðis takmarkast við móttöku og flutning á tilteknum spilliefnum til frekari vinnslu hjá aðilum með starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Til spilliefna teljast þau efni sem merkt eru með stjörnu (*) í reglugerð nr. 184/2002, breytt með reglugerð 428/2003.

1.3 Heimilt er að taka við spilliefnum sem eru í tækjum eða vélahlutum sem berast stöðinni. Hér má nefna olíur og glussa í vélum og glussakerfum sem og kælimiðla í frysti- og kæliskápum. Önnur mótaka, geymsla eða meðhöndlun spilliefna er óheimil á athafnasvæðinu, sbr. einnig ákvæði 1.2.

1.4 Óheimilt er að geyma úrgang, brotamálma, gáma, vélar, tæki og dráttarvagna utan lóðar. Sama á við um bifreiðar hlaðnar úrgangi.

2. Um meðhöndlun úrgangs

2.1  Magn brotajárns, góðmálma og kapla á svæðinu skal ekki vera meira en svo að úrgangurinn sjáist ekki frá nálægum aksturleiðum. Þannig skal gengið frá úrgangi að ekki stafi af honum fokhætta. Áhersla skal lögð á jafna vinnslu alls efnis sem tryggir að rúmtak þess sé í lágmarki hverju sinni.

2.2  Tæming á vélaolíu og vökvum af bifreiðum og vélum skal fara fram innan dyra. Séu niðurföll í gólfum þar sem slík starfsemi fer fram skal afrennsli af þeim leitt í olíuskilju. Að öðru leyti vísast til samræmdra starfsleyfisskilyrða fyrir „móttökustöðvar fyrir ökutæki sem áformað er að farga“.

2.3  Brennlanlegan úrgang, s.s. gúmmí, timbur og plast skal geyma í gámum og skulu gámarnir fluttir til viðeigandi förgunaraðila jöfnum höndum þannig að ekki verði óþarfa uppsöfnun á slíku efni innan lóðar fyrirtækisins.

2.4  Málmar skulu pressaðir á afmörkuðu steyptu plani þar sem afrennsli er tengt við olíuskilju, sbr. kort í viðauka I.

2.5  Málmum sem kunna að innihalda olíur og önnur spilliefni skal safnað á afmarkað steypt plan þar sem afrennsli er tengt við olíuskilju, sbr. kort í viðauka I.

2.6  Við innkeyrslu inn á athafnasvæðið skulu vera leiðbeiningar til þeirra sem koma með úrgang til fyrirtækisins. Meðal þess sem fram skal koma í leiðbeiningunum er opnunartími móttökunnar og hvar einstökum gerum úrgangs skuli komið fyrir á lóðinni.

 

3. Innra eftirlit

3.1  Fyrirtækið skal hafa innra eftirlit með starfseminni sem m.a. er fólgin í skráningu á eftirfarandi:

a). Skráningarskyld atvik er varða spilliefni sem óheimilt er að taka við í móttökustöðinni.

Þegar spilliefni sem eða hlutir sem innihalda spilliefni berast í móttökustöðina skal skrá:

Gerð spilliefna.

Magn spilliefna, rúmmál eða þyngd eftir eðli spilliefnanna sem um ræðir.

Förgunaraðila sem efnin eru send til.

Aðra viðeigandi þætti eftir atvikum.

b). Skráning þeirra spilliefna sem heimilt er að taka við í móttökustöðinni.

Skrá skal magn (massa eða rúmmál) sem skilað hefur verið inn á athafnasvæðið og svo það magn sem flutt hefur verið til móttökustöðvar eða flutningsaðila. Kvittunum fyrir förgun efnanna skal haldið til haga og þær aðgengilegar Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, sjá einnig ákvæði 1.2 og 1.3.

c). Olíuskiljur.

Skrá skal eftirlit með olíuskiljunum:

Mánaðarlega skal skrá þykkt olíunnar í skiljunni fyrsta rekstrarárið.*

Mánaðarlega skal skrá magn af sandi / eðju í sandfangi fyrsta rekstrarárið.*

Skrá skal dagsetningu, magn, förgunar- og flutningsaðila vegna förgun á sandi / eðju úr sandfangi.

Skrá skal dagsetningu, magn, förgunar- og flutningsaðila vegna förgun á olíu úr olíuskilju.

Dagsetningu á pófunum á skynjunar- og viðvörunarbúnaði.

*Tíðni mælinga verður endurskoðuð að loknu fyrsta rekstrarári.

d). Mengunaróhöpp.

Skrá skal öll mengunaróhöpp sem verða, m.a. þegar hellast niður spilliefni, t.d. við að slöngur olíuþrýstikerfa vinnuvéla gefa sig. Skrá skal umfang óhappsins, viðbrögð og hvernig staðið var að hreinsun auk annars sem máli kann að skipta.

3.2 Fyrir 1. mars ár hvert skal fyrirtækið skila Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja umhverfisskýrslu fyrir síðastliðið almanaksár. Í skýrslunni skal lagt er mat á reksturinn út frá umhverfissjónarmiðum. Yfirlit yfir skráningar innra eftirlits, sbr. gr. 3.1. skal í umhverfisskýrslunni sett upp með aðgengilegum hætti.

4. Starfsemi hætt

4.1 Tilkynna skal Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja ef starfsemi fyrirtækisins verður lögð niður. Þá skal öllum efnaleifum og ónothæfum efnum skilað til móttökustöðvar fyrir spilliefni.

4.2  Gengið skal frá lóð og mannvirkjum þannig að ekki stafi af fok eða slysahætta. Sá frágangur skal unnin í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja.

5. Frárennsli og mengunarvarnir

5.1  Frárennsli frá steyptu plani, sbr. kort í viðauka I, skal leitt í olíuskilju til þess að koma í veg fyrir að olía berist ekki út í umhverfið.

5.2  Vatni úr olíuskilju skal dælt í fráveitukerfi, sbr. rgl. nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns.

5.3  Frárennsli úr starfsmannaðstöðu skal leitt í skólpkerfi sveitarfélagsins eða um rotþró og siturlögn, sbr. leiðbeiningar Umhverfisstofnunar þar að lútandi.

6. Ýmis ákvæði

6.2  Forráðamaður fyrirtækisins ber ábyrgð á að það starfi í samræmi við skilyrði þessi og lög og reglur sem um starfsemina gilda. Eintak af starfsleyfisskilyrðunum og viðkomandi reglum skulu ávallt tiltæk á vinnustað og ber forráðamanni fyrirtækisins að sjá til þess að starfsmenn þess þekki til ákvæða þeirra.

6.3 Um starfsumhverfi og varnir gegn skaðlegum áhrifum á starfsmenn fer samkvæmt lögum nr.  46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum.

6.4  Fyrirtækið skal tilnefna fulltrúa sem eftirlitsaðilar geta haft samband við utan venjulegs afgreiðslutíma fyrirtækisins ef þörf krefur.

7. Ákvæði til bráðabirgða

7.1  Ákvæði 5.2 um fráveitu skal uppfyllt eigi síðar en 1. júní 2005.

7.2  Ef ekki reynist unnt að uppfylla ákvæði 5.2. skal fyrirtækið senda Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hönnun og tímasetta áætlun um frekari hreinsun á frárennslisvatni sem tryggir mengun geti ekki borist með því í grunnvatn, sbr. viðauka við rgl. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns. Slík áætlun skal þá besast Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja eigi síðar en 15. apríl 2005.

Viðauki I. Yfirlitsmynd yfir skipulag lóðarinnar. Umgengni um lóðina skal ávalt vera í samræmi við yfirlitsmynd þessa.

Þeir þættir starfseminnar sem hvað líklegastir eru til þess að valda mengun, s.s. pressun málma, söfnun og geymsla á úrgangi sem á einhverjum tímapunkti hefur innihaldið fljótandi spilliefni skulu fara fram á steypta planinu sem tengt er við olíuskilju, sbr. ákvæði 2.4, 2.5, 5.1 og 7.2.